Samantekt um þingmál

Skattar og gjöld

4. mál á 152. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að leggja til breytingar sem snúa m.a. að skerpingu á orðalagi, gjalddagaskiptingu þing- og sveitarsjóðsgjalda einstaklinga og útvarpsgjalds, refsinæmi vegna vanframtalinna fjármagnstekna hjóna, framlengingu á gildistíma úrræðis varðandi skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa o.fl.

Helstu breytingar og nýjungar

Lögð er til sú breyting vegna vanframtalinna fjármagnstekna hjóna að refsiákvæði laganna taki ekki einungis til þess maka sem hefur hærri hreinar tekjur heldur taki einnig til skatts af þeim tekjum sem tilheyra tekjulægri makanum. Hins vegar ber að telja fram hjá þeim maka sem hefur hærri tekjur. Gert er ráð fyrir að við framtalsskil geti framteljandi óskað eftir að greiða eftirstöðvar álagðra skatta og gjalda í einu lagi á fyrsta gjalddaga eftir álagningu en ella verði eftirstöðvunum skipt á hefðbundna gjalddaga samkvæmt gildandi lögum. Þá er lagt til að gildistími úrræðis varðandi skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa verði framlengdur um þrjú ár. Enn fremur er lagt til að fjárhæðarmörk skattskyldu þeirra sem selja raforku eða heitt vatn verði hækkuð úr 500 þúsund kr. í 2 milljónir kr.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013.
Lög um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009.
Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
Lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.
Lög um bifreiðagjald, nr. 39/1988.
Lög um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.
Lög um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.
Lög um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003.
Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
  • Skylt mál: Skattar og gjöld, 211. mál (efnahags- og viðskiptanefnd) á 152. þingi (20.01.2022)

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á tekjur ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum.


Síðast breytt 27.01.2022. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.